Nú nýverið hélt ég stutt erindi á menntamorgni Samtaka atvinnulífsins um áskoranir og lærdóm við að framleiða stafrænt námsefni. Mig langar að deila þeim atriðum sem ég fór yfir hér ykkur til fróðleiks og vonandi hagnýtingar í ykkar eigin vegferð við að framleiða stafrænt efni.

 1. Erfitt að byrja
  Það tók okkur smá tíma að komast af stað í að framleiða fyrstu námskeiðin. Eins konar framleiðslustífla átti sér stað því við vorum að ofhugsa umgjörðina, efnistökin og fyrirkomulagið. Við vorum til að mynda of upptekin af því að námskeiðin þyrftu að vera löng og efnismikil, til að ná utan um viðfangsefni í heild sinni. En eftir að hafa hugsað þetta betur, ákváðum við að byrja bara á stuttum einföldum námskeiðum og ekki tapa okkur í framleiðslustýringu.
 2. Mikilvægi handrits
  Þó að námskeiðin sem við byrjuðum á áttu að vera einföld, stutt og hnitmiðuð, þá þurftum við handrit. Handrit þarf þó oft ekki að vera flóknara en listi af atriðum sem farið er í gegnum á námskeiðum, ásamt nokkrum lykilpunktum varðandi hvert atriði. Hvað þú ætlar að segja og fara yfir, hvers vegna og hvernig.
 3. Óhrædd við að henda og byrja aftur
  Ef maður er óánægður með upptökuna, þá er bara byrja aftur. Við höfum þurft að henda töluvert af upptökum. Hljóðið var ekki nógu gott, náði ekki að sýna það sem ég ætlaði, upptakan var of löng (reyndar hægt að klippa til, þarf ekki alltaf að henda), netið datt út/kerfiið var hægvirkt, osfrv.
 4. Góður búnaður
  Mikilvægt að vera með góðan upptökubúnað, sérstaklega hljóð og fyrir skjáupptöku (við notum Camtasia). Ef hljóðupptökubúnaðurinn er ekki góður, getur verið ómögulegt að laga hljóðið til eftirá.
 5. Gera ráð fyrir að nota stafrænt efni með öðrum kennsluleiðum
  Stafrænt efni þarf ekki að standa eitt og sér. Það nýtist vel með öðrum kennsluleiðum. Gott er að hugsa það þannig og brjóta það frekar upp í marga litla búta/einingar. T.d. gæti einn námskeiðshluti af stafrænu námskeiði verið samsettur af skjali, glærum, myndbrotum, spurningakönnun, vefstund (Webinar) ofl.

Þetta er alls ekki tæmandi listi yfir okkar lærdóm og áskoranir en svona það helsta.